Æskan og skógurinn
Vorönn 2020
Fyrsta verkefnið í byrjun árs var Æskan og skógurinn. Verkefnið snýst um að brjóta um handbók fyrir unglinga og í því ferli þarf að ákveða stærð bókar, hanna kápu, vinna myndir, velja pappír, vinna textann og prenta út.
Eftir að ég skoðaði nokkrar mismunandi stærðir af bókum varð ég strax hrifin af ferningslögun; bókin yrði jafn löng og hún er breið. Ég byrjaði að vinna bókina í 150 mm x 150 mm en ég endaði á 160 mm x 160 mm til að gefa mér aðeins meira rými fyrir ljósmyndir.
Bókakápan var löng fæðing. Ég byrjaði að skissa og leita eftir innblæstri á netinu. Á Pexels.com fann ég fallega vatnslitateikningu af trjágreinum sem ég notaði á kápuna. Leturgerðin sem ég valdi fyrir kápuna var Ageo; mjúk og sterk steinskrift.
Það tók 11 leturprufur til að finna út hvaða leturgerð, leturstærð og leturfótur hentaði bókinni. Það sem varð fyrir valinu var PMN Caecilia 9 pt/13,5 pt.
PMN Caecilia er rosalega mjúkt og fallegt þverendaletur með stóra fjölskyldu sem hentaði þessu verkefni afskaplega vel.