Um mig
Ég heiti Hulda Sól og er fædd í desember árið 1996 í Reykjavík. Þaðan flutti ég til Svíþjóðar, síðan á Blönduós, síðan á Akranes, svo Hveragerði og að lokum aftur til Reykjavíkur. Ég ólst upp á mörgum stöðum og hver staður mótaði mig á mismunandi hátt. Ég náði ekki að festa almennilega rætur í æsku vegna flutninga, þurfti oft að skipta um skóla og yfirgefa æskuvini. Það eina sem ég náði að gera reglulega var að teikna. Ég hef alltaf haft áhuga á myndlist, hönnun og útliti. Mér fannst skemmtilegast á æskuárunum að búa til karaktera og semja teiknimyndasögur. Ég gat gleymt mér marga klukkutíma á dag bara að teikna og ímynda mér allskonar sögur.
Ég fékk fyrstu teiknitöfluna mína þegar ég var 12 ára gömul. Ég notaði hana til að teikna í myndvinnsluforritinu Gimp og Photoshop. Ég fór að vafra um á netinu og uppgvötaði þar heim fullan af innblæstri og allskonar teiknistílum. Ég æfði mig á hverjum einasta degi og varð betri og betri. En síðan komu framhaldsskólaárin þar sem ég bar meiri ábyrgð á mínu eigin námi. Ég hafði ekki eins mikinn tíma og áður til að teikna. Það tók mig 6 ár að klára stúdentinn og á þeim tímapunkti var ég alveg hætt að teikna. En síðan uppgvötaði ég grafíska miðlun í Tækniskólanum. Þar gat ég notað ímyndunaraflið og tölvukunnáttu mína í námið.